Um okkur
Reykjanesbær er ungt og kraftmikið samfélag í örum vexti þar sem fjölbreytileikinn fær að njóta sín. Það er staðsett á utanverðum Reykjanesskaganum og innan Reykjanes UNESCO GLOBAL GEOPARK sem er einstakt svæði á heimsvísu.
Hafið og gjöful fiskimið hafa mótað byggð og mannlíf í Reykjanesbæ og þar varð til gróskumikið samfélag sem varð miðja alþjóðlegra áhrifa með komu varnarstöðvar NATO á Keflavíkurflugvelli. Flugvöllurinn er í dag einn stærsti vinnustaður landsins og um hann fer fjöldi ferðamanna á hverju ári en segja má að Reykjanesið sé fyrsti og síðasti áfangastaður þeirra sem til landsins koma.
Sveitarfélagið er fjórða stærsta sveitarfélag landsins en þar búa í dag um 20 þúsund manns – og fer fjölgandi.
Samgöngur
Styttur bæjarins
Ljósanótt
Heilsueflandi samfélag
Fólkið og sagan
Hafið og gjöful fiskimið hafa mótað byggð og mannlíf meðfram sjávarsíðunni í gegnum aldirnar. Þar var Keflavík mikilvæg miðstöð verslunar á Suðurnesjum vegna mikils framboðs af fiski sem veiddist steinsnar frá landi. Þessi nálægð við fiskimiðin gerði það að verkum að jarðir á Suðurnesjum voru meðal þeirra eftirsóttustu á Íslandi.
Á vetrarvertíð skiptu bátarnir hundruðum sem réru frá verstöðum á Suðurnesjum. Fjölmarga sjómenn þurfti á alla þessa báta á meðan á veiðunum stóð og því fjölgaði íbúum um mörghundruð ef ekki þúsund yfir aðalveiðitímann.
Elstu merki um búsetu á Suðurnesjum má finna í Höfnum en þar fannst skáli sem talinn er vera frá tímum landnáms. Leifur Eiríksson gaf frændkonu sinni Steinunni gömlu Rosmhvalanes allt sunnan hvassahrauns eins og Landnáma kemst að orði. Vildi hún þó frekar gjalda fyrir landið með Heklu einni eða kápu. Góð kaup það. Molda-Gnúpur nam Grindavík en annars er frásögn Landnámu um Suðurnes óljós.
Völlurinn
Líklega hefur enginn einn atburður haft meiri áhrif á atvinnulíf og mannlíf á Reykjanesi en bygging Keflavíkurflugvallar og koma bandarísks varnarliðs árið 1951. Þegar umsvifin voru mest var byggðin á Keflavíkurflugvelli, eða vellinum eins og hann var kallaður, sjötta stærsta byggðarlag landsins. Varnarstöðin var hluti af daglegu lífi Suðurnesjamanna í hálfa öld en þar var einn af hverjum fimm í varnarliðsvinnu.
Í september árið 2006 lauk þeirri sögu er síðasti hermaðurinn fór af landi brott en talið er að alls hafi rúmlega tvö hundruð þúsund Bandaríkjamenn starfað eða dvalið á Íslandi á vegum varnarliðsins frá upphafi.
Eftir stendur Keflavíkurflugvöllur sem er stærsti vinnustaður landsins og hliðið inn í landið. Þegar útgerð í Reykjanesbæ dalaði má segja að flugvöllurinn og umsvif um hann hafi orðið okkar síld eða álver. Þar er gríðarlegur vöxtur sem ekki sér fyrir endann á enda tækifærin mörg.
Varnarliðið í túnfætinum hafði gríðarleg áhrif á menningu og mannlíf á Suðurnesjum sem og landinu öllu en varnarstöðin færði okkur ferska strauma úr heiminum og skapaði tækifæri fyrir tónlistarmenn og íþróttamenn.
Bítlabærinn
Reykjanesbær er kallaður bítlabærinn en þar fæddist fyrsta bítlahljómsveit landsins, þangað kom rokkið í gegnum útvarpsstöð kanans, nýjustu plöturnar, nýjustu bíómyndirnar og nýjustu hugmyndirnar. Einn suðupottur menningaráhrifa sem helltist yfir nágrennið.
Hljómar stigu á svið í Krossinum árið 1963 og eftir það var ekkert samt. Þar fæddist poppstjarnan Rúnar Júlíusson, sú fyrsta sem Ísland eignaðist og Keflavík hélt áfram að framleiða tónlistarmenn eins og Vilhjálm og Ellý Vilhjálms, Jóhann Helgason og Magnús Þór Sigmundsson, Magnús Kjartansson, Jóhann G., Þorstein Eggertsson og marga, marga fleiri.
Körfuboltabærinn
Þrátt fyrir stutta sögu er líklega engin íþrótt á suðurnesjum eins vel þekkt meðal landsmanna nú á seinni árum og körfuboltinn. Bandarískir varnarliðsmenn léku körfubolta á vellinum og þar kynntust Íslendingar þessari íþrótt. Starfsmenn slökkviliðssins á Keflavíkurflugvelli stofnuðu fyrsta íslenska körfuboltaliðið 1951 undir nafni Íþróttafélag Keflavíkurflugvallar. Þeir sigruðu á fyrsta Íslandsmótinu sem haldið var á Íslandi árið 1952. Þeir náðu aftur íslandsmeistarartitli árin 1953, 1956 og 1958. Njarðvíkingar fjármögnuðu nýja körfuboltahöll með dollurum sem í dag hefur fengið viðurnefnið Ljónagryfjan. Keflvíkingar áttu ekki hús fyrir körfubolta og því æfðu þeir í Njarðvík til að byrja með.
Það má með sanni segja að frá upphafi körfuboltans á Íslandi hafa lið frá Reykjanesbæ ávallt verið þar fremst í flokki.