Styttur bæjarins
Grey stytturnar, sem enginn nennir að horfa á, sungu Spilverk þjóðarinnar en það getur verið skemmtileg dægrastytting að kynna sér útilistaverk í Reykjanesbæ. Þau gefa lífinu lit og eru allskonar.
17. júní flaggstöngin
17. júní flaggstöngin
Skrúðgarðurinn í Keflavík. Á fyrsta ári lýðveldisins var ákveðið að gera myndarlega fánastöng í Skrúðgarði Keflavíkur til minningar um lýðveldistökuna 17. júní 1944. Séra Eiríkur Brynjólfsson á Útskálum vígði svo stöng á þjóðhátíðardaginn 1945 sem síðan var lengd og settur undir hana hærri fótstallur. Nú er heildarlengd stangarinnar með fótstalli um 17,5 metrar. Hönnuður fótstallsins var Helgi S. Jónsson og Sævar Helgason gerði landvættirnar eftir teikningum Helga. Framan á miðjum stöplinum sem snýr að Suðurgötu eru stafirnir 17. júní 1944 og á þeirri hlið sem snýr inn í garðinn er lágmynd af Jóni Sigurðssyni, gerð af Ríkarði Jónssyni. Á hverju horni eru súlur sem gnæfa upp fyrir stöpulinn og eiga að minna okkur á festu og óbilandi hugrekki þjóðarinnar og einnig tákna þær keflin sem staðurinn Keflavík heitir eftir. Út frá hverjum stöpli rísa svo landvættir Íslands. Umhverfis stöpulinn er steypt blómaker sem táknar fósturjörðina og þar skal plantað hreinblárri íslenskri fjólu með umgjörð úr hreinhvítum lágum kantblómum; tákn hreinleikans og bláhvíta íslenska fánans í upphafi aldarinnar. Á þessa stöng skal þjóðfáninn dreginn að húni 17. júní ár hvert og ekki við önnur tækifæri. Þessi regla hefur þó verið brotin í þrjú skipti, eða þegar forsetar lýðveldisins hafa komið í opinbera heimsókn til Keflavíkur.
Askur Yggdrasils – Lífsins tré
Askur Yggdrasils – Lífsins tré
Á lóð Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja, Skólavegi 6. Gjöf Iðnaðarmannafélags Suðurnesja til Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja á fimmtíu ára afmæli stofnunarinnar. Verkið er eftir Erling Jónsson og er gefið til minningar um alla þá iðnaðarmenn sem fallnir eru frá og til að minna á að án iðnaðarmanna er ekki hægt að vera. Verkið var afhjúpað 18. nóvember 2004. Í hugleiðingu Konráðs Lúðvíkssonar, lækningaforstjóra HSS sem hann flutti í tilefni gjafarinnar segir m.a. “Heimstré Erlings Jónssonar tengist stofnun okkar á margan hátt. Hann kaus að skreyta greinar þess með þrastarpari sem bíður eftir að lífið birtist því úr innviðum fimm eggja sem snyrtilega eru lögð í fagurlega tilsniðið hreiður. Talan fimm er tákn þeirra skilningarvita sem dýrmætust eru manninum. Hreiðurgerðin og þessi sérstöku tengsl sem myndast milli fuglanna er skírskotun til þeirrar eftirvæntingar sem verðandi foreldrar á fæðingardeildinni finna fyrir. Krónan umvefur stofnunina og er tákn þess mannkærleika sem í stofnuninni á að ríkja, hér er upphafi lífs og hér endar fólkið lífið og hér eru allir einstaklingar jafnir.”
Ankerið við Ægisgötu
Ankerið við Ægisgötu
Neðan við Duushús Ankerið er af Brúarfossi og Karvel Ögmundsson flutti það til bæjarins. Það var sett upp við opnun Bátasafns Gríms Karlssonar í Duus Safnahúsum 2002. Í frétt í Morgunblaðinu frá 6. apríl 2004 segir: Sögulegu ankeri hefur verið komið fyrir á landfyllingunni neðan við Ægisgötu í Keflavík. Ankerið er af Brúarfossi sem Eimskipafélag Íslands lét smíða í Danmörku árið 1927 og átti í 30 ár. Brúarfoss var eitt af farsælustu skipum félagsins fyrr og síðar. Í einni ferðinni fyrir vestan brotnaði önnur flaugin af ankerinu í blágrýtinu í Aðalvík. Karvel Ögmundsson, útgerðarmaður í Njarðvík, keypti síðar ankerið og notaði það sem legufæri í Njarðvíkinni, fyrir bátinn Vöggu GK 204. Karvel lét síðan taka ankerið á land og á síðustu árum hefur það legið við smábátahöfnina í Keflavík eða þar til því var komið fyrir á landfyllingunni. Ankerið er sannarlega þögull minnisvarði liðins tíma.
Brunnur við Brunnstíg
Brunnur við Brunnstíg
Við Brunnstíg. Endurgerð vatnsbrunns frá því um 1907. Afhjúpaður á Ljósanótt 2007. Áður en brunnurinn við Brunnstíg, norðan Norðfjörðstúns, var grafinn voru tveir brunnar í Keflavík. Þeir voru við Náströnd og Íshússtíg. Þorgrímur Þórðarson læknir gat ekki fellt sig við stöðu vatnsmála í Keflavíkurþorpi, og í kjölfar tíðinda af taugaveikisýktu vatnsbóli í Reykjavík boðaði hann til fundar þar sem samþykkt var að Duusverslun myndi sjá til þess að ævinlega væru tvö vatnsból í tryggu og góðu standi í kauptúninu. Á móti féllust húsfeður, sem brunnana notuðu, á að greiða sérstakan vatnsskatt árlega með lóðarleigugjöldum í allt að 20 ár eða þar til útgjöld verslunarinnar ásamt vöxtum væru að fullu greidd. Framkvæmdir hófust árið 1907 og var grafinn brunnur vestan Norðfjörðstúns. Þegar Duusverslun hóf að innheimta hinn umsamda vatnsskatt vildu heimilisfeður ekki borga. Í fyrsta lagi voru þeir ósáttir við að þurfa að greiða kostnað vegna vegar sem gerður var að nýja vatnsbólinu (og síðar varð Brunnstígur). Ennfremur biluðu brunndælurnar fljótlega svo oft var ógjörningur að ná vatni úr brunnunum. Þá neitaði verslunarstjóri hjá Duus að kosta viðgerðir og brunnurinn lá ónotaður næstu árin. Það var ekki fyrr en 1911 að hnúturinn leystist með nýrri lagasetningu Alþingis sem heimilaði að hreppsnefndir innheimtu vatnsskatt og í framhaldi breyttist viðhorfið til vatnsveitu í þorpinu. Keflavíkurhreppur keypti vatnsbólin tvö af verslun H.P. Duus árið 1917 fyrir 1.500 krónur og annaðist þau eftirleiðis. Árni Sigfússon, bæjarstjóri, vígði á Ljósanótt 2007 endurgerð brunnsins við Brunnstíg. Á brunninn er nú komin ný dæla. Árni gat þess við vígsluna að skortur á neysluvatni hefði lengi verið mikill vandi á Suðurnesjum og hafi þeir brunnar sem fyrir voru, áður en brunnurinn við Brunnstíg var gerður, verið rammsaltir. Sú gamansaga hafi því gengið lengi vel á Innnesjum að Suðurnesjamenn hefðu ævinlega með sér saltstauk til að strá í kaffið er þeir kæmu í höfuðstaðinn .
Börn
Börn
Á mótum Reykjanesbrautar og Þjóðbrautar. Hugmyndin að verkinu er komin frá Jóni Adolf Steinólfssyni sem leitaði til leikskólans. Vallar um „Óla prik” teikningar frá börnunum. Honum bárust um 200 teikningar sem hann valdi úr og vann áfram með. Hann nýtti sér m.a. myndvinnsluforrit til að tengja fígúrurnar saman svo úr varð ein mynd. Það var svo Ásmundur Sigurðsson í samnefndri vélsmiðju sem smíðaði verkið m.a. úr steypustyrktarjárni.
Dropinn
Dropinn
Við Flughótel, Hafnargötu 57. Verk Erlings Jónssonar frá 1992. Hugleiðing höfundar: Í eyðimörkinni torvelda brennheitir sólargeislarnir allt líf að deginum til en á nóttunni kólnar og daggardropar myndast sem kaktusinn dregur til sín og dafnar því vel.
Flug
Flug
Á hringtorgi á mótum Iðavallar og Aðalgötu. Verk eftir Erling Jónsson sem fyrst var sýnt á Vindhátíð í Reykjavík haustið 2000 Verslunin Ný-ung keypti verkið og setti það upp fyrir framan verslunina að Hafnargötu 12 á Ljósanótt , 1. september 2001. Var það gert í minningu Steinþórs Júlíussonar, fyrrverandi bæjarstjóra. Þegar vindurinn blæs um verkið, hvín í pípunum eins og um lifandi veru sé að ræða.
Fótboltamaðurinn
Fótboltamaðurinn
Knattspyrnuvöllurinn í Keflavík við Hringbraut. Eftir Erling Jónsson. Ein af tólf einingum eftir Erling Jónsson sem listamaðurinn gerði af íþróttamönnum í hinum ýmsu greinum íþrótta. Styttan mun hafa verið reist um 1979 á knattspyrnuvellinum.
Fuglahúsið
Fuglahúsið
Ofan við Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Þegar viðbygging Fjölbrautaskóla Suðurnesja var byggð var efnt til samkeppni um útilistaverk við skólann. Verk Sigurðar Guðmundssonar var valið og var það sett upp 1994. Dómnefndin lét hafa eftir sér að verkið væri formfagurt og aðlaðandi í annars sundurleitu umhverfi. Á palli er form sem minnir á haus og út úr þessu hausformi gengur yddaður blýantur úr bronsi en áfast við hnakkann er fuglahús úr bronsi. Höfundur segir verkið tengjast hlutverki skólans, fuglahúsið táknar einhvers konar anddyri eða byrjun en blýanturinn er tilvísun til framtíðarinnar og býr yfir skerpu sem er andstæða eða framtíð hins fiðraða unga, sem sagt nemandans.
Geirfuglinn
Geirfuglinn
Neðan við Valahnúk á Reykjanesi. Verk eftir listamanninn Todd McGrain sett upp á Reykjanesi á Ljósanótt 2010. Styttan er hluti af verkefni hans The Lost Bird Project þar sem hann vinnur skúlptúra af útdauðum fuglum og kemur þeim fyrir í upprunalegum heimkynnum þeirra. Með því vill hann vekja athygli samtímans á umhverfisvernd og ást á náttúrunni. Hann vinnur fuglana í brons og er hverjum fugli ætlaður staður eftir því hvar upprunanleg heimkynni hans voru. Í tilefni þess að talið er að síðasti geirfuglinn hafi verið drepinn í Eldey 3. júní 1844 var ákveðið að styttan af geirfuglinum yrði sett upp neðan við Valahnúk á Reykjanesi þar sem fuglinn horfir út til Eldeyjar og minnir okkur um leið á sameiginlega ábyrgð allra þjóða á náttúru og umhverfisvernd. Um verk sitt segir Todd McGrain m.a. „Snerting er mjög mikilvæg í verkinu mínu, einn mikilvægasti þáttur þess. Yfirborð styttunnar er mjúkt eins og steinn sem hefur verið slípaður af sjó og sandi. Þú getur gengið upp að styttunni, snert hana og horft út til eyjarinnar.“ Hann segir staðsetningu þess afar mikilvæga og að með henni náist hið sögulega samhengi. Verkið sé minnisvarði um útdauða tegund auk þess sem útliti geirfuglsins sé breytt með þeim hætti að hann standi eins og maður, frekar en fugl. „Þegar fólk skoðar skúlptúrinn mun það átta sig á því að ákveðin viðkvæmni er í lögun hans sem gerir það að verkum að hann er ekki hrein birtingarmynd geirfuglsins heldur frekar áhrifamikill skúlptúr í líki geirfugls.“ Auk geirfuglsins á Reykjanesi er að finna tvo aðra eftir McGrain, þó ekki nákvæmlega eins, einn við dýragarðinn í Róm og annan á Nýfundnalandi, nærri Funk-eyju. Fimm útdauðar fuglategundir eru í verki McGrain: flökkudúfa, skaftpáfi, labradorönd, lynghæna og geirfugl. Hinir fuglarnir fjórir verða staðsettir í Bandaríkjunum.
Gosbrunnur
Gosbrunnur
Á hringtorgi á mótum Hafnargötu og Vatnsnesvegar. Reistur árið 2005. Reistur sem liður í endurnýjun Hafnargötunnar.
Hlutverk
Hlutverk
Á Fitjum. Verkið var unnið af listhópnum Norðanbáli sem m.a. sá um hönnun og gerð Skessuhellisins og Skessunnar í Gróf. Fígúrurnar eiga það til að bregða sér í hin ýmsu hlutverk eftir því hvað um er að vera í bænum hverju sinni og setja þannig skemmtilegan svip á innkomuna í bæinn. Verkið var kostað af versluninni Bónus og sett upp á Ljósanótt 2007.
Holskefla
Holskefla
Sunnan við samkomuhúsið Stapann í ytri-Njarðvík. Höggmynd eftir myndhöggvarann Sigurjón Ólafsson. Verkið var reist í júlíbyrjun árið 1971 og er unnið í eir. Í umfjöllun um verk Sigurjóns er okkur bent á að í Holskeflu storkar listamaðurinn þyngdarlögmálinu og kemur allri þyngd verksins fyrir öðru megin, svo að formin, í þessu tilfelli öldurnar, virðast í þann mund að brotna.
Horft á heiminn í nýju ljósi
Horft á heiminn í nýju ljósi
Á túninu við Duustorg á milli Hafnargötu og Ægisgötu. Verkið var sett upp á Barnahátíð í Reykjanesbæ 2010. Það er gert úr fjórum litum af plexígleri og ryðfríu stáli. Hugmyndin er að börn og fullorðnir geti horft á umhverfið í gegnum litina: rauðan, gulan, grænan og bláan og séð hvernig það breytist. Verkið er eftir listamanninn Guðmund Rúnar Lúðvíksson en Reykjanesbær kostaði smíði og uppsetningu verksins sem var smíðað hjá Blikksmiðju Ágústar í Reykjanesbæ.
Hrafna-Flóki
Hrafna-Flóki
Við Víkingaheima Styttan af Hrafna-Flóka var afhent á sérstökum trjáræktardegi sem varnarliðsmenn á Keflavíkurflugvelli héldu hátíðlegan um nokkurra ára skeið í viðleitni til fegrunar umhverfisins Þann 11. júní 1994 var auk hefðbundinnar gróðursetningar vígður reitur framan við gömlu flugstöðina þar sem um langt árabil stóðu stangir er báru fána Íslands, Bandaríkjanna og Norður-Atlantshafsbandalagsins. Þar var styttan afhjúpuð af forsætisráðherra Íslands, Davíð Oddssyni. Styttan sem var höggvin úr marmara af bandaríska listamanninum Mark J. Ebbert var gjöf Varnarliðsins til íslensku þjóðarinnar í tilefni hálfrar aldar afmælis lýðveldisins. Listamaðurinn hafði þá dvalið hér á landi í tvö ár með eiginkonu sinni sem var sjóliðsforingi í Varnarliðinu. Sagan segir að listamanninum hafi unnist verkið svo seint að hann var langt frá því að vera búinn að höggva styttuna niður í fyrirhugaða stærð þegar hún þurfti að afhendast. Þess vegna er víkingurinn svo þykkur og pattaralegur. Styttan var flutt að Víkingaheimum árið 2010.
Hvorki fugl né fiskur
Hvorki fugl né fiskur
Skrúðgarðurinn í Keflavík við Sólvallagötu. Erlingur Jónsson var fyrstur til að fá útnefninguna Listamaður Keflavíkur og var það árið 1991. Af því tilefni var ákveðið að reisa listaverk á stöpli í miðbæ Keflavíkur, þar sem ígreipt skyldu nöfn þeirra sem valdir eru listamenn bæjarins á hverju kjörtímabili. Listaverkið var svo sett upp sumarið 1992 í skrúðgarði Keflavíkur. Hugleiðing höfundar að verkinu er: “Þrívíð hugleiðing til heiðurs listafólki Keflavíkur. “Áttvís á tvennar álfustrendur, einbýl, jafnvíg á báðar hendur, situr hún hafsins höfuðmið.” Listafólk Keflavíkur hvorki sitji né standi stjarft í viðjum vanans, heldur leiti sem víðast jákvæðra fanga.”
Jamestown ankerið
Jamestown ankerið
Aftan við Kirkjuvogskirkju. Í Höfnum varð uppi fótur og fit þegar það spurðist út í þorpinu að morgni 26. júní 1881. að risastórt seglskip væri að stranda við Hvalsnes, á milli Hestakletts og Þórshafnar í Ósunum gegnt Kotvogi. Þeir sem fyrstir komu á vettvang sáu að skipið var mannlaust og töldu ljóst að það hefði verið lengi á reki því allur seglbúnaður þess og reiði var horfinn. Þetta reyndist vera timburflutningaskipið Jamestown, gríðarstórt bandarískt seglskip (líklega um 4.000 tonn á núverandi mælikvarða), sem rekið hafði mannlaust um hafið í 4 mánuði áður en það strandaði. Skipið brotnaði í spón á fáum dögum en það tókst að bjarga stórum hluta farmsins, um 100 þúsund plönkum, skv. sumum heimildum, af góðum borðviði sem nýttist til húsbygginga á Suðurnesjum og víðar. Ankerið var híft á land fyrir tilstilli Jóns Borgarssonar og fleiri íbúa Hafna árið 1989. Annað samsvarandi ankeri stendur á þurru landi í Sandgerði og tvö minni ankeri og keðja í Vestmannaeyjum.
Kaldárhöfðasverð
Kaldárhöfðasverð
Víkingatorg, hringtorg á Víkingabraut. Stækkuð eftirlíking af Kaldárhöfðasverðinu sem fannst í landi Kaldárhöfða við Úlfljótsvatn 20. maí árið 1946. Sverðið er varðveitt í Þjóðminjasafni Íslands. Talið er að sverðið hafi verið í eigu höfðingja sem uppi var á 10. öld. Sverðið er af svokallaðri o-gerð, 91 cm að lengd og er talið vera frá 10. öld, engilsaxneskt að uppruna. Það hefur verið afar vandað og fallega skreytt. Verkið er um 7 m hátt og unnið úr graníti af listamanninum Stefáni Geir Karlssyni. Sverðið vísar á Víkingaheima við ströndina í Njarðvík, sem hýsir m.a. víkingaskipið Íslending. Það var afhjúpað árið 2005 af þáverandi menntamálaráðherra Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur. Framkvæmdin var kostuð af Sparisjóðnum í Keflavík og Magnúsi Magnússyni frá Höskuldarkoti.
Keflavíkurmerkið
Keflavíkurmerkið
Ósnef (á Strandleið) Bæjarstjórn Keflavíkur ákvað 12. maí 1966 að taka upp byggðarmerki fyrir Keflavíkurkaupstað. Helgi S. Jónsson teiknaði merkið og hugsaði táknmál merkisins á þessa leið: “Blái liturinn er tákn himins og hafs. Súlurnar þrjár eru keflin sem Keflavík heitir eftir og þær eru líka þær þrjár meginstoðir sem bera Keflavík uppi; land, loft og sjór. Bárurnar eru tákn úthafsöldunnar sem berst að landi. Fuglinn er tákn hinna hvítu máva en einnig flugsins og ferðarinnar inn í framtíðina.” Fljótlega gerði Helgi S. tillögu að standmynd merkisins og árið 1976 vann Erlingur Jónsson standmyndina sem stóð fyrir framan bæjarskrifstofur Keflavíkur frá 1976 til 1991. Þá stóð það við Ráðhús Reykjanesbæjar að Tjarnargötu 12 til ársins 2002 þar til það var flutt á Ósnef og afhjúpað á nýjum stað á Ljósanótt.
Laxnessfjöðrin
Laxnessfjöðrin
Á lóð gamla barnaskólans við Skólaveg 1. Áhugahópur um listasafn Erlings Jónssonar undir forystu Birgis Guðnasonar, gaf Bókasafninu verkið á Ljósanótt árið 2002. Í ávarpi sínu við afhjúpunina líkti Erlingur Nóbelsskáldinu við örn og sagði: "Þannig var Halldór Laxness eins og haförn sem hafði íslenska þjóð undir áhrifavaldi sínu í sínum bókmenntum og dró ævinlega arnsúg á fluginu.”
Listagarður barna
Listagarður barna
Meðfram fjörugarðinum neðan við strandlengjuna í Innri-Njarðvík. Á haustdögum 2009 barst stjórnendum leikskólans Holts skemmtileg hugmynd frá móður leikskólabarns. Fjallaði hugmyndin um að safna gömlum barnastígvélum og leyfa börnunum að skreyta þau bæði í máli og myndum með fjöruna sem viðfangsefni. Stígvélunum var fundinn staður meðfram strandlengju Reykjanesbæjar þar sem þau eru orðin hluti að fjölbreyttri lista- og menningarflóru í bæjarfélaginu.
Ljósaskúlptúr á Hafnargötu
Ljósaskúlptúr á Hafnargötu
Á hringtorgi á mótum Hafnargötu og Faxabrautar. Settur upp árið 2003.
Mánahesturinn
Mánahesturinn
Klapparhæð ofan við Hringbraut á móts við Greniteig. Verk Erlings Jónssonar var afhjúpað 1. maí 1986. Mánahesturinn var keyptur og settur upp af Keflavíkurbæ. Hugleiðing listamannsins að verkinu er; “um meginforsendur fyrir tilvist íslensku þjóðarinnar í landi sínu. Hesturinn var jafnan þarfasti þjónninn. Formun hugmyndarinnar í fast efni hófst á Mánagrund, því þótti eðlilegt að endanlegt form hlyti nafnið Mánahestur. Frá vissu sjónarhorni má sjá segl og stefni víkingaskips auk hestsins. Ennfremur þykjast margir sjá eins og logandi ljós á kerti og hugsa til orða Benedikts Gröndal; “lýstu mér saga með ljósi þínu”.
Merki Njarðvíkurkaupstaðar
Merki Njarðvíkurkaupstaðar
Á Fitjum. Verk Áka Gränz. Afhjúpað 1992 á 50 ára afmæli Njarðvíkurkaupstaðar til að minnast endurreisnar Njarðvíkurhrepps og fyrstu hreppsnefndarinnar. Merkið sýnir stílfærðar línur sem höfða til víkinga og sjávarguðsins Njarðar. Í merkinu er höfuð sem vísar til fortíðar með tvo ölduborða sem kórónu, tákn tvískiptrar byggðar, Ytri- og innri Njarðvíkur. Yfir segli er þotumynd sem minnir á nútímann og lögun Reykjaness. Skrifstofur Njarðvíkur voru staðsettar á þessum stað fyrir sameiningu Keflavíkur, Njarðvíkur og Hafna árið 1994.
Minningarsteinn um Sveinbjörn Egilsson
Minningarsteinn um Sveinbjörn Egilsson
Austan við Innri-Njarðvíkurkirkju. 27. febrúar 1991 var minnisvarði um Sveinbjörn Egilsson afhjúpaður austan við Innri-Njarðvíkurkirkju. Þá voru liðin 200 ár frá fæðingu þessa merkismanns sem var fyrsti rektor við Lærða skólann í Reykjavík en hafði áður verið kennari um árabil við Bessastaðaskóla. Sveinbjörn var mikill fræðimaður og þýddi mörg af helstu bókmenntaverkum heims yfir á íslensku, s.s. Hómerskviður og Biblíuþýðingar hans þóttu frábærar. Hann orti líka talsvert og frægastur er eflaust sálmurinn Heims um ból. Sveinbjörn var fæddur á stórbýlinu Innri-Njarðvík árið 1791 og lést 1852. Minnisvarðinn er eftir Áka Gränz og var reistur að tilhlutan bæjarstjórnar Njarðvíkur.
Minnismerki um Krossinn
Minnismerki um Krossinn
Við Krossmóa. Krossinn í Ytri-Njarðvík var samkomuhús allra Suðurnesjamanna um tveggja áratuga skeið. Hann var upphaflega byggður sem hersjúkrahús og mun nafn hans af því dregið. Magnús í Höskuldarkoti gekk frá kaupum á byggingunni 1942. Kvenfélagið og Ungmennafélagið í Njarðvík ráku síðan bygginguna uns Stapinn var tekinn í notkun [Stapinn var vígður 23. október 1965]. Ýmis félög höfðu afnot af henni, þ.á.m. skátahreyfingin og æskulýðsráð. Sigtryggur Árnason, yfirlögregluþjónn, annaðist niðurrif Krossins 1979. Hann mundi eftir 18 dansleikjum einn vetrarmánuðinn og ávallt húsfyllir, um 400 manns.
Minnismerki sjómanna
Minnismerki sjómanna
Á móts við Hafnargötu 6. Minnismerki sjómanna eftir Ásmund Sveinsson var afhjúpað á sjómannadaginn 4. júní 1978 í holtinu fyrir ofan Holtaskóla. Sumarið 2000 var það flutt niður að sjónum, neðarlega við Hafnargötu. Í upphafi var það reist að frumkvæði Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur. Ásmundur gerði verkið 1973 og hjá Listasafni Reykjavíkur er það skráð undir heitinu Sjómannaminnismerki. Í bókinni um Ásmund (útg. 1999) eftir Matthías Johannessen segir á bls. 45: “Ásmundur klappaði lítilli gipsstyttu í safninu: Hérna er akkerið og þetta er björgunarhringurinn, sagði hann. Þeir vilja fá þetta til Keflavíkur. Það á að minna á sjómennina. Ég kalla það Fast þeir sóttu sjóinn og sækja hann enn, því ég var alltaf að raula það fyrir munni mér, meðan ég var að hugsa um styttuna.”
Minnisvarði horfinna
Minnisvarði horfinna
Keflavíkurkirkjugarður. Sóknarnefnd Keflavíkurkirkju lét reisa minnisvarðann og var hann vígður á sjómannadaginn 5. júní 1994. Minnisvarðinn er gerður úr þremur stuðlabergssúlum og á honum stendur: "Allt megna ég fyrir hjálp hans, sem mig styrkan gjörir." Minnisvarðinn var unninn í Steinsmiðju S. Helgasonar hf.
Minnisvarði um drukknaða skipsáhöfn
Minnisvarði um drukknaða skipsáhöfn
Við suðurgafl Duus Safnahúsa. Aðstandendur reistu steininn til minningar um 4 unga skipverja sem fórust í lendingu við Stokkavör 6. apríl 1930 Í tímaritinu Ægi 1930, 23. Árg, 4. tbl bls. 91 birtist eftirfarandi grein um atburðinn: Slys í Keflavík. 4 menn drukkna. Vélbáturinn Baldur réri úr Keflavík á laugardaginn 4. þ. m. og kom aftur daginn eftir. Þegar búið var að koma aflanum í land, fóru skipverjar með bátinn út á höfn til þess að leggja honum þar. Síðan fóru þeir allir 5 í land á stóru fjögra manna fari. En þá bar út af réttri leið, og lentu á flúð fyrir vestan bryggjuna og hvolfdi bátnum og brotnaði nokkuð. Drukknuðu 4 skipverjar en sá fimmti bjargaðist. Hékk hann á bátnum, en var þó búinn að sleppa honum, enda meðvitundarlaus, þegar hann náðist; það var vaðið út eftir honum. Bátur var strax settur fram, en það kom að engu haldi. Þetta skeði um kl. 7 og var ekki orðið dimt. Þeir sem drukknuðu hétu: Guðjón Sigurðsson úr Keflavík, ógiftur, 23—24 ára. Stefán Jóhannesson úr Keflavík, milli þrítugs og fertugs (giftur Þórdísi Torfadóttur, þau eiga 2 eða 3 börn). Júlíus Hannesson, 18 eða 19 ára, á foreldra í Reykjavik, og Skafti Guðmundsson af Seyðisfirði, ógiftur, um þrítugt. Þrír af þessum mönnum kunnu að synda. — Öll líkin hafa fundist. Fanst eitt um nóttina kl. 4, en tvö kl. 10 morguninn eftir. Sá skipverja, sem bjargaðist, var Arinbjörn Þorvarðarson formaður bátsins, maður á fertugsaldri (sonur Þorv. Þorvarðarsonar í Keflavík). Vélbáturinn Baldur er eitthvað innan við 12 smál. Þeir eiga hann Arinbjörn form., Valdimar Kristmundsson, Keflavík, og Ólafur Ásbjörnsson kaupmaður í Reykjavík.
Minnismerki um Helga S.
Minnismerki um Helga S.
Við Skátahús Skátafélagsins Heiðabúa, Hringbraut 101. Merkið var reist af Keflavíkurbæ og nokkrum félagasamtökum og afhjúpað 21. ágúst 1985. Lágmynd af Helga S, eins af stofnendum félagsins og foringja þess í yfir 30 ár, framan á vörðunni er eftir Erling Jónsson en hönnun vörðunnar og umhverfisins var í höndum garðyrkjumannanna Guðleifs Sigurjónssonar og Einars Þorgeirssonar. Grunnflötur verksins er helluhraun af Reykjanesi. Í það er lögð áttavitarós en innan rósarinnar rís lágur hraunhóll sem varðan stendur á. Merkið á að undirstrika einkunnarorð skátafélagsins Heiðabúa; “Heiðabúar, vísið veginn, vörðum hlaðið eyðisand.”
Minnisvarði um Jón Þorkelsson
Minnisvarði um Jón Þorkelsson
Við Innri-Njarðvíkurkirkju. Eitt af stærstu verkum Ríkarðs Jónssonar, afhjúpað í maí árið 1965. Sýnir skólamanninn Jón Þorkelsson sitjandi með tvö börn. Jón Thorkillius fæddist í Innri-Njarðvík 1697 og dó í Kaupmannahöfn 1759. Hann var mikill lærdómsmaður og barðist fyrir endurbótum í fræðslumálum á Íslandi. Hann arfleiddi fátæk skólabörn í átthögum sínum, Kjalarnesþingi, að öllum eigum sínum. Stofnaður var sjóður, Thorkellisjóður og m.a. var fyrsti barnaskóli landsins starfræktur fyrir fé úr þessum sjóði.
Minnisvarði um Skjaldarbrunann
Minnisvarði um Skjaldarbrunann
Við Kirkjuveg. Aðstandendur fórnarlamba brunans 30. desember 1935 létu reisa steininn (í bæklingi er missagt 30. apríl) Afhjúpaður 24. nóvember 1991 Í sögu Keflavíkur 1920 – 1949 segir svo frá að um árlega jólatrésskemmtun ungmennafélagsins hafi verið að ræða í samkomuhúsi þess. Hátt jólatré stóð á miðju gólfi og loguðu vaxkerti á greinum þess. Á skemmtuninni voru um 200 manns, mestan part börn. Skyndilega varð eldur laus við jólatréð sem varð alelda á augabragði og húsið stóð í björtu báli á skammri stundu. Eldsvoðinn kostaði 10 mannslíf, þrátt fyrir hetjulega framgöngu ýmissa björgunarmanna. Sex fórust í brunanum sjálfum, fjögur börn og tvær konur. Þrír dóu af sáum daginn eftir og sá fjórði nokkrum vikum síðar. Þá lá fjöldi fólks á sjúkrastofum vegna brunasára og annarra meiðsla. Eftir harmleikinn mátti kalla að Keflavíkurkauptún væri lamað um hríð og áfallið snerti raunar við landsmönnum öllum. Árið 2010 gaf Dagný Gísladóttir út bókina Bruninn í Skildi árið 2010 þar sem m.a. má finna viðtöl við fólk sem upplifði þennan hörmungaratburð.
Minnisvarði um Þjóðhátið 1874
Minnisvarði um Þjóðhátið 1874
Við kirkjuna í Innri-Njarðvík. Árið 1874 var þjóðhátíð haldin á Þingvöllum til að fagna 1000 ára afmælis Íslandsbyggðar. Þjóðhátíðarinnar var minnst á Suðurnesjum eins og víðast annars staðar á landinu. Í tilefni þessa var reistur minnisvarði við kirkjuna í Innri-Njarðvík árið 1974, en á þeim stað héldu fjórir innstu hreppar Gullbringusýslu þjóðhátíð sína dagana 15.-16. ágúst 1874. Áki Gränz og Ingvar Jóhannsson sáu um framkvæmdina að tilhlutan Byggðasafnsnefndar og hreppsnefndar Njarðvíkur.
Nónvarða
Nónvarða
Ofan við götuna Nónvörðu. Rótarýklúbbur Keflavíkur endurreisti vörðu þessa á holtinu ofan við götuna Nónvörðu árið 1973. Holtið gekk ætíð undir nafninu Nónvarða og mundu menn vörðu er áður hafði staðið þarna. Varða sú var eyktamark frá Keflavíkurbæ og sýndi eyktamarkið nón, þ.e. um kl. 15:00. Eyktamark er fastur punktur í landslagi sem var til forna notaður sem viðmið við sólargang til að vita hvað tímanum líður. Til dæmis átti það við um fjallatoppa, hóla eða hæðir eða jafnvel hlaðnar vörður, sem sólina bar í séð frá ákveðnum bæ, á tilteknum tíma. Algengt var að slíkir staðir hétu eftir eyktamörkunum, svo sem eins og Nónvarða, Hádegishnúkur eða eitthvað slíkt.
Olíutrektin
Olíutrektin
Við ÓB stöðina á Fitjum. Stefán Geir Karlsson hefur starfað að listsköpun í 25 ár og er einkum þekktur fyrir skúlptúra sem unnir eru undir áhrifum popplistar. Þannig hefur hann meðal annars stækkað upp hversdagslega hluti og með því krafið áhorfandann um að horfa á þekkt viðfangsefni öðrum augum en áður. Hlutina velur hann þó ekki bara vegna formfæðilegrar fegurðar þeirra heldur eru þeir á ýmsan hátt tengdir æskuminningum listamannsins og sumir hverjir þjóðerni. Olíutrektin var hluti af sýningargripum á sýningu Stefáns í Listasafni Reykjanesbæjar árið 2003 en vegna stærðar verksins var það sýnt utandyra.
Ólafur Thors
Ólafur Thors
Fokkan, túnbali milli Hringbrautar og Brekkubrautar. Fyrsta höggmyndin sem sett var upp í Keflavík. Fyrsta höggmyndin sem sett var upp í Keflavík var af Ólafi Thors fyrrum þingmanni Sjálfstæðisflokksins og var hún afhjúpuð af ekkju hans Ingibjörgu Thors 12. október 1976. Áki Gränz hannaði listaverkið og undirstöðu þess að frumkvæði Sjálfstæðismanna á Suðurnesjum.
Pláneturnar á Reykjanesi
Pláneturnar á Reykjanesi
Víðs vegar um Reykjanesið . Hluti af sýningunni Orkuverið jörð sem Hitaveita Suðurnesja opnaði 2008. Plánetur sólkerfisins eru settar upp í hlutfallslega réttri fjarlægð og stærð frá sólinni sem sjálf er staðsett við Reykjanesvirkjun.
Sagnatröllin
Sagnatröllin
Steintröll sem sjá má víða um bæinn. Tröllin eru hugmynd Áka Gränz og eru liður í viðleitni hans til að halda til haga örnefnum og sögum tengdum svæðinu. Í bæklingi eftir Áka segir að Íslendingar hafi alltaf verið miklir sagnamenn og hafi byrjað að skrifa bækur á 12. öld þar sem hin stórbrotna virka náttúra landsins kemur við sögu ásamt mikilli flóru örnefna og landsvættum, álfum og tröllum. Meðal tröllanna má telja Tyrkjavörðutröllin, Grænáskirkju,Nástrandartröllin, Stapatröllin, Frey og Freyju og Sýslumanninn og eru þau staðsett víða um bæinn m.a. við Ægisgötu, Flugvallarveg, við Víkingaheima og á Vogastapa.
Símklefinn á Lundúnatorgi
Símklefinn á Lundúnatorgi
Lundúnatorg á mótum Hringbrautar og Þjóðbrautar. Lundúnatorg er annað torgið í röð 5 torga í Reykjanesbæ sem saman mynda svokallaða Þjóðbraut. Torgin verða öll tileinkuð 5 heimsborgum. Hugmyndin að baki Þjóðbrautarverkefninu er sú að Reykjanesbær sé nokkurs konar hlið eða andlit Íslands að umheiminum og ekki síður umheimsins að Íslandi og torgum prýddur vegurinn liggi eins og þjóðbraut út í hinn stóra heim. Þegar kom að því að velja verk á torgið var leitað eftir helstu kennileitum Lundúna. Þegar hugmyndin að rauða símklefanum, sem er svo einkennandi fyrir Lundúnir, leit dagsins ljós small verkið saman. Hugmyndin kom frá fyrirtækinu Kator sem sá um útfærslu á verkefninu.
Skessuhellir
Skessuhellir
Grófin við smábátahöfnina. Skessan eignaðist þetta heimili í september 2008. Bæjarstjórinn bauðst til að reisa henni bústað hér eftir að hún kom sjómönnum til bjargar í ofsaveðri á Suðurnesjum. Hönnun og gerð hellisins og gerð Skessunnar var í höndum listahópsins Norðanbáls. Í hann er notað efni úr nálægu umhverfi. Skessan er hugverk Herdísar Egilsdóttur sem ritað hefur fjölda bóka um Skessuna Nánari upplýsingar um Skessuna má finna á vefsíðunni skessan.is og á Facebook síðu Skessunnar
Sjávarguðinn Ægir
Sjávarguðinn Ægir
Tilhogginn steinn framan við Park Inn hótel. Höfundur verksins er Jón Adolf Steinólfsson. Hugmynd Jóns Adolfs var að nýta efnivið úr okkar nánasta umhverfi, sem nóg er til af, til listsköpunar. Verkið er unnið í grágrýti úr Helguvík árið 2010 og var sett upp fyrir Ljósanótt árið 2011.
Snúinn Eiffelturn
Snúinn Eiffelturn
Á Parísartorgi á mótum Þjóðbrautar og Sunnubrautar. Verkið er eftir listamanninn Stefán Geir Karlsson. Það er steinskúlptúr unninn í Kína og fluttur hingað til lands. Fyrirmyndinn er Eiffelturninn í París en verkið er einmitt staðsett á Parísartorgi, sem er þriðja torgið í röð hringtorga á svokallaðri Þjóðbraut, sem liggur frá Hafnargötu að Reykjanesbraut. Verkið var afhjúpað á Ljósanótt 2013 af sendiherra Frakklands á Íslandi, Marc Bouteiller.
Sólúrið
Sólúrið
Framan við Myllubakkaskóla við Sólvallagötu. Sólúrið á lóð Myllubakkaskóla var afhjúpað 29. maí 2004. Það var gjöf nemenda Barnaskóla Keflavíkur sem fæddir eru árið 1950, í tilefni af fjörutíu ára fermingarafmæli hópsins. Sólúrið er minnisvarði og tákn um sameiginlegt ferðalag nemendanna í gegnum skólann og tileinkað minningu Vilhjálms Ketilssonar, fyrrverandi skólastjóra Myllubakkaskóla, sem lést árið 2003 og annarra úr fermingarhópnum sem fallnir eru frá. Innan í sólúrinu er steyptur „hornsteinn” og í honum er geymdur undirskriftarlisti með nöfnum og hinstu kveðju allra nemenda, kennara og starfsfólks Myllubakkaskóla til Vilhjálms. Sólúrið er á skemmtilegan hátt táknrænt fyrir sköpunarkraft mannsandans og er hugsað sem hvatning nemendum til dáða í náttúruvísindum jafnframt því að vera til gleði og yndisauka. Þegar sólúr mælir hreyfingar sólar frá austri til vesturs vísar það á stundir dagsins með því að varpa skugga af priki á skífuna. Talið er að Babýloníumenn hafi fundið upp sólúrið a.m.k. 2000 árum fyrir Krist. Sólúr eiga sér um 4000 ára sögu en þetta sólúr er hannað og framleitt af hátækni nútímans. Sólúrið er þannig útbúið að sá sem ætlar að nota það til að sjá hvað tímanum líður verður að stíga á mánuðinn og sjá skugga sinn falla á klukkuna.
Steinn til minnis um vinabæjarsamskipti Norðurlandanna
Steinn til minnis um vinabæjarsamskipti Norðurlandanna
Skrúðgarðurinn í Njarðvík. Settur upp 18. júní 1998. Settur upp til að minna á vinabæjarsamskipti Norðurlandanna.
Stjáni blái
Stjáni blái
Á móts við Hafnargötu 84. Verk Erlings Jónssonar keypt og sett upp í tilefni 40 ára afmælis Keflavíkurkaupstaðar árið 1989. Það var frú Vigdís Finnbogadóttir forseti Íslands sem afhjúpaði verkið 1. apríl þetta sama ár. Kvæði Arnar Arnarsonar um Stjána bláa varð höfundi listaverksins tilefni til hugleiðinga, sbr. „austur af sól og suður af mána, sýður á keipum himinlind.”
Stjörnuspor
Stjörnuspor
Stjörnuspor Reykjanesbæjar. Hugmynd frá árinu 2003 sem Hilmar Bragi Bárðarson, blaðamaður Víkurfrétta, fékk að láni frá Los Angeles. Hún var löguð að aðstæðum í Reykjanesbæ í samvinnu við Steinþór Jónsson þáverandi formann undirbúningsnefndar Ljósanætur. Hugmyndin var sú að allir sem skarað hafa fram úr og markað spor í bænum með einum eða öðrum hætti komi til greina og útfærslan á sporunum geti orðið mismunandi eftir tilefnum. Megin hugmyndin er þó sú að málmskildir tileinkaðir viðkomandi aðilum eru settir í gangstéttina víða við aðalgötu bæjarins, Hafnargötuna. 2003 Stjörnuspor Hljómar (Hafnargata 28 - Hljómval) Tekin var ákvörðun í Ljósanæturnefnd að Hljómar yrðu á fyrsta Stjörnuspori Reykjanesbæjar þar sem fjörutíu ár voru liðin frá því hljómsveitin kom fyrst fram í Keflavík, heimabæ sínum. Á plattanum eru fjörutíu stjörnur til að minna á tilefnið og eiginhandaráritanir hljómsveitarmanna. Óhætt er að segja að Hljómar hafi komið bítlabænum á kortið og verið góð auglýsing fyrir bæinn allar götur síðan. 2004 Stjörnuspor Gullaldarliðið ( Hafnargata 29 – Verslunin K-sport) Tileinkað gullaldarliði Keflavíkur í knattspyrnu frá árunum 1964 til 1973. Gullaldarárin í knattspyrnu í Keflavík hófust með fyrsta Íslandsmeistaratitli liðsins árið 1964 en á þessu tíu ára tímabili var liðið í fremstu röð og vann Íslandsmeistaratitilinn í meistaraflokki fjórum sinnum. Gullaldarliðið kom bænum fyrst á kortið í knattspyrnu og má með sanni segja að Keflavík hafi lifað á þeirri frægð síðan sem knattspyrnubær. Liðið spilaði á þessum árum m.a. við mörg frægustu lið Evrópu s.s. Real Madrid, Everton, Tottenham og fleiri. 2005 Stjörnuspor Ellý og Vilhjálmur Vilhjálmsbörn ( Hafnargata 19 - Ráin) Tileinkað dægurlagasystkinunum frá Merkinesi í Höfnum, Ellý og Vilhjálmi Vilhjálmsbörnum. Stjörnusporið er staðsett framan við veitingahúsið Rána í Keflavík. Ættingjar og velunnarar systkinanna tóku formlega við sporinu. Við sama tækifæri var tilkynnt að hópur tónlistarfólks, ættingja og velunnara hefði stofnað til félagsskapar sem hefði það að markmiði að heiðra minningu systkinanna frá Merkinesi með því að reisa þeim veglegan minnisvarða við fæðingarstað þeirra í Höfnum á Reykjanesi. Kom fram við athöfnina að stjörnusporið væri því aðeins lítið spor að einhverju stærra. 2005 Gestaspor Clint Eastwood (Hafnargata 33 – Nýja bíó) Tileinkað leikaranum og leikstjóranum heimskunna, Clint Eastwood. Tilefnið var kvikmyndataka stórmyndarinnar Flags of our Fathers sem fram fór í landi Reykjanesbæjar þetta sama sumar. 2006 Stjörnuspor Guðrún Bjarnadóttir (Hafnargata 49 – Úra- og skartgripaverslun Georg V. Hannah) Tileinkað íslensku alheimsfegurðardrottningunni og fyrirsætunni Guðrúnu Bjarnadóttur (f.1942) sem ólst upp í Njarðvík. Hún var kjörin Ungfrú Ísland árið 1962, varð í fimmta sæti í keppninni Miss United Nations og var svo kjörin Miss International árið 1963. Hún starfaði síðan sem fyrirsæta í fimmtán ár og var ein af þekktari ljósmyndafyrirsætum Evrópu. Guðrún hætti fyrirsætustörfum þegar hún giftist auðmanninum Bastiano Bergese. Hún á einn son. 2007 Stjörnuspor Gunnar Eyjólfsson (Hafnargötu 22) Tileinkað Gunnari Eyjólfssyni, einum af sonum Keflavíkur, stórleikara og fyrrum skátahöfðingja. Formleg afhjúpun sporsins fór fram á æskuslóðum Gunnars á horni Hafnargötu og Klapparstígs. Það þótti upplagt tilefni að heiðra Gunnar Eyjólfsson með þessum hætti á 100 ára afmæli skátastarfs í heiminum og 70 ára afmæli Skátafélagsins Heiðabúa. Þar var Gunnar mjög virkur félagi á sínum yngri árum. 2008 Söguspor Sparisjóðurinn í Keflavík (Við Tjarnargötu 12) Tileinkað Sparisjóðnum í Keflavík fyrir að vera bakhjarl Suðurnesjamanna í 100 ár og virkur þátttakandi í menningu, mannlífi og atvinnulífi Suðurnesja. Það voru þeir Geirmundur Kristinsson sparisjóðsstjóri og Steinþór Jónsson, formaður Ljósanæturnefndar, sem afhjúpuðu Sögusporið. 2009 Söguspor Keflavíkurstöðin (Duusgata 6 - Duushús) Tileinkað vinnuframlagi Íslendinga á Keflavíkurflugvelli. Um þúsund Íslendingar unnu hjá Varnarliðinu og annar eins fjöldi hjá Íslenskum aðalverktökum. Staðurinn var valinn í ljósi þess að á sama tíma var sýning Byggðasafns Reykjanesbæjar, Völlurinn – nágranni innan girðingar, opin en hún fjallaði einmitt um áhrif Vallarins sem vinnustaðar og nágranna á byggðarlögin í kring.
Stjörnuþokusmiður
Stjörnuþokusmiður
Sparisjóðurinn í Keflavík festi árið 2004 kaup á listaverkinu af Listasafni Erlings Jónssonar og var það staðsett á lóðinni við húsnæði Sparisjóðsins að Tjarnargötu 12. Erlingur segir þannig sjálfur frá tilurð verksins að Kristinn Reyr hafi hitt hann á Hafnargötunni, heilsað og farið með nýorta vísu eftir sjálfan sig sem var svohljóðandi: Nú er ég að námi sestur, norður, suður, austur, vestur. Hvað er upp og hvað er niður herra stjörnuþokusmiður. Tilefni vísunnar var lestur skáldsins á grein um stjörnufræði. Erlingur reyndi að myndskreyta vísuna og varð jafnframt hugsað til þess þegar Kristinn Reyr kom í Sparisjóðinn, hitti Guðmund Guðmundsson sparisjóðsstjóra og bað um lán til siglingar. Guðmundur svaraði að venju: “Það eru engir peningar til,” sagði þó við Kristin: “Komdu aftur á morgun, ég athuga málið.” Þegar Kristinn kom aftur daginn eftir sagði Guðmundur: “Þeir vilja að þú siglir.” Skúlptúrinn er spurning um hvað sé upp og hvað sé niður, einnig skírskotun til stjarnfræðilegrar siglingar Kristins. Jörðin er orðin að skálarformuðu skipi með lengdar- og breiddarbauga fyrir reiða. Önnur eliment tákna hreyfitæki (segl) og eru áttir þeirra í hæsta máta óræðar. Heimild: Faxi og Erlingur Jónsson (skilti)
Súlan
Súlan
Menningarverölaun Reykjanesbejar Menningarverðlaun Reykjanesbæjar eru veitt árlega einstaklingum eða fyrirtækjum sem unnið hafa vel að menningarmálum í bæjarfélaginu. Verðlaunagripurinn er eftir Elísabetu Ásberg og ber heitið Súlan. Menningarráð Reykjanesbæjar lagði til á fundi sínum í apríl 2018 að gerð yrði eftirmynd af Súlunni og listaverkið sett upp í nágrenni Duus Safnahúsa. Tilefnið var afmæli þriggja menningarstofnana bæjarins á árinu. Bókasafn Reykjanesbajar varð 60 ára, Byggðasafn Reykjanesbæjar 40 ára og Listasafn Reykjanesbæjar 15 ára. Bæjarstjórn samþykkti tillöguna.
Súlueggið
Súlueggið
Reykjavíkurtorg er fyrsta torgið í röð hringtorga á svokallaðri Þjóðbraut, sem liggur frá Hafnargötu að Reykjanesbraut þar sem ein aðalinnkoma í bæinn er. Þarna á torginu er mikið vindálag og þótti því tilvalið að koma fyrir Marmarakúlu sem Reykjanesbær átti frá fyrri tíð. Saga kúlunnar er að fyrirtækið Kator flutti hana inn árið 2006 og stóð til að koma henni fyrir í anddyri á nýjum sameiginlegum höfuðstöðvum Hitaveitu Suðurnesja og Ráðhúss Reykjanesbæjar á Fitjum en aldrei varð úr því verkefni og Marmarakúlan endaði í porti Umhverfismiðstöðvar engum til gagns. Eftir margra ára dvöl í portinu fékk umsjónaraðili Útilistaverka heimild til að koma kúlunni fyrir á Reykjavíkurtorgi og gefa þessu umhverfisverki nafn.
Sundmaðurinn
Sundmaðurinn
Á suðurgafli sundmiðstöðvarinnar við Sunnubraut. Stórt mósaíkverk eftir Höllu Haraldsdóttur. Samsett úr 175 þúsund ítölskum mósaíksteinum í bláum, hvítum og gráum tónum, sumir heilir en sumir brotnir niður og höggnir til af listakonunni sjálfri og undir hennar umsjón. Listakonan afhjúpaði sjálf verkið 28. september 1991 en Keflavíkurbær kostaði það. Hugleiðing Höllu um verkið er; “mósaíkmyndin er ímynd hins hrausta sundmanns sem klýfur öldur vatnsins á öflugu skriðsundi.”
Togvíraklippur
Togvíraklippur
Togvíraklippur Togvíraklippur, fallbyssa úr varðskipi og skel af tundurdufli Á Keflavíkurtúni gegnt Duus Safnahúsum. Á túninu eru hlutir frá Landhelgisgæslu Íslands, togvíraklippur, fallbyssa úr varðskipi, líklega Þór og skel af tundurdufli. Þegar í upphafi 15. aldar leituðu breskir fiskimenn á Íslandsmið og aðrar þjóðir fylgdu í kjölfarið. Margvíslegar deilur spruttu af þessum fiskveiðum og einnig verslun við landsmenn. Danska stjórnin reyndi að stjórna þessari umferð með misjöfnum árangri. Árið 1952 var landhelgin færð í 4 sjómílur og jafnframt út fyrir grunnlínur til að loka fjörðum og flóum. Landhelgin var síðan færð út í nokkrum áföngum. Árið 1958 í 12 sjómílur, 1972 í 50 sjómílur og loks 1975 í 200 sjómílur eins og hún er í dag. Allar þessar aðgerðir ollu miklum deilum við nágrannaþjóðir, einkum Breta. Ýmsum brögðum var beitt. Bretar settu hafnbann á fiskútflutning Íslendinga til Bretlands og sendu herskip á miðin til varnar fiskiskipum sínum. Íslensku varðskipin reyndu að stöðva og trufla veiðarnar. Þann 5. september 1972 var leynivopni, hönnuðu af Íslendingum, fyrst beitt en það voru togvíraklippur. Klippt var á togvíra um 100 breskra togara áður en yfir lauk. Bresku herskipin reyndu að trufla varðskipin með því að sigla á þau og einu sinni lá við að varðskipinu Tý yrði hvolft. Þann 11. september 1975, kærðu Íslendingar Breta til Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna og slitu stjórnmálasambandi við þá í nokkra mánuði árið 1976. Þessum deilum lauk með samningum. Þann 1. desember 1976 hurfu bresk fiskveiðiskip úr íslenskri lögsögu og allir útlendingar utan Færeyingar voru farnir ári seinna.
Uppspretta
Uppspretta
Vatnstankur í Vatnsholti. Sumarið 2013 var gömlum vatnstanki í eigu bæjarins breytt í útilistaverk með aðstoð listhóps að nafni Toyistar. Toyistasamtökin eru alþjóðlegur listhópur 28 félaga með varnarþing í Hollandi en þrír listamannanna voru íslenskir og bjuggu í Reykjanesbæ. Hópurinn vinnur við að endurbæta gömul mannvirki og breyta þeim í listaverk og hefur unnið við svipuð verkefni víða. Nauðsynlegt var að gera ráðstafanir vegna tanksins hvort eð var, þar sem hann er staðsettur á útivistasvæði í bænum og var orðinn til mikillar óprýði. Þarna voru slegnar tvær flugur í einu höggi, umhverfinu unnið gagn um leið og búinn var til einstakur listgripur með alþjóðlega tilvísun. Tankurin nvar afhjúpaður á Ljósanótt 2013 og er algjörlega einstakt verk í íslenskum veruleika en um leið hluti af alþjóðlegri keðju umhverfislistaverka.
Valkostir
Valkostir
Við Íþróttaakademíuna, Krossmóa 58 Gjöf höfundarins, Árna Johnsen, í framhaldi af sýningu hans á Ljósanótt 2004, Grjótið í Grundarfirði. Efniviðinn í sýninguna sótti Árni að mestu í fjöruna undan Krossnesbjargi í Grundarfirði. Gegnheilt stál, efni í öxla, notar hann til að tengja grjót í grjót. Í þessu verkitók Árni mót af höndum sínum sem síðan voru steyptar í kopar í Málmsteypunni Hellu en þær eru burðarásinn í verkinu. Höfuðmarkmið Árna eru einfaldleikinn með ákveðinni skírskotun og ímyndunarafli sem getur talað til gesta og gangandi.
Veggskreytingar á Stapa
Veggskreytingar á Stapa
Á suðurvegg samkomuhússins Stapa í Ytri-Njarðvík. Þar má sjá veggskreytingar eftir Ásgerði Búadóttur listakonu. Listakonan sækir hugmyndina að verkinu í sjósókn Suðurnesjamanna og sjá má bæði fiska og skútur. Húsið var vígt 23. október 1965.