Reykjanes jarðvangur
Reykjanesbær er í miðjum eldfjallagarði sem hefur fengið alþjóðlega vottun UNESCO sem Global Geopark.
Atlantshafshryggurinn gengur á land á Reykjanesi en hvergi í heiminum má sjá flekaskil með jafn áþreifanlegum hætti. Þar reka í sundur tvær úthafsplötur Norður Ameríku og Evrasíu en skilin milli flekanna birtast ýmist sem opnar spurngur og gjár eða sem gígaraðir og er Reykjanesið þannig virkur hluti gosbeltis Íslands. Orkan kraumar neðan jarðar.
Þegar flekarnir gliðna skapast rými fyrir kviku sem þrýstir sér upp eins og sjá mátti þegar eldgos hófst í Geldingadölum 19. mars 2021 en gosið var það fyrsta á Reykjanesi í 800 ár.
Aðgengi að Reykjanesi er gott og sennilega leitun að þeim stað í heiminum þar sem hægt er að upplifa jafn fjölbreytta náttúru og jarðminjar á jafn stuttum tíma.
Aðeins steinsnar frá höfuðborginni og alþjóðlegum flugvelli má finna dýrðarþögn í ægifögru og hrikalegu landslagi án nokkurrar truflunar. Þar má upplifa spúandi hveri, náttúrulaugar, sprengigíga og hella, drungalegar hraunmyndir, óendanlegar mosabreiður, volga læki og voldugt brim þar sem úthafsaldan nær landi í öllum sínum mikilfengleik.
Staðsetning
- Reykjanes
- Sjá heimasíðu
Meira til að sjá og skoða
Leitaðu ekki langt yfir skammt og njóttu þess sem Reykjanesbær hefur upp á að bjóða