Visit Reykjanesbær

Miðbær

Hin sögufræga Hafnargata liggur meðfram strandlengjunni uppfrá hinum fornu verslunarhúsum Duus kaupmanna þar sem verslun hófst á 19. öld.

Það er ekki lengur verslað með fisk á Hafnargötunni en þar má finna fjölda verslana með fjölbreytt framboð og ekki síst, næg bílastæði.

Eftir verslunarleiðangurinn er auðvelt að finna veitingastaði til þess að nærast og hvílast þar sem Reykjanesbær er fjölþjóðlegt samfélag og ríkt af matarmenningu heimsins.

Betri Bær

Betri bær eru samtök verslana og veitingastaða í Reykjanesbæ. Þau hafa meðal annars  gefið út gjafabréf í nafni samtakanna og staðið fyrir lengri opnun og viðburðum á sérstökum dögum yfir árið, í sumarbyrjun, fyrir Ljósanótt og jólahátíð.

Krossmói

Fyrir þá sem vilja frekar versla inni er verslunarmiðstöðin Krossmói tilvalin en hún er staðsett í miðju bæjarfélagsins, við Krossmóa.
Þar er að finna verslanir og ýmsa þjónustu í notalegu umhverfi auk veitingastaða. Bílastæði eru ekki af skornum skammti.

Fitjar

Við Fitjarnar hefur byggst upp verslunarkjarni með stórum verslunum sem eru staðsettar við Reykjanesbrautina. Má þar nefna Rúmfatalagerinn, Húsasmiðjuna og Krónuna.

Ekki má gleyma glænýja fiskinum í söluskála Issa sem hann notar í besta „fish and chips“ landsins. Við stöndum við það.